Hver er ég?
Ég heiti Vaka Dögg Björnsdóttir, fædd þann 1. mars árið 1985 hér í Reykjavík. Hér ólst ég upp, en bjó um tíma á Patreksfirði, sem og í Njarðvík. Ég á eina dóttur, Sveinbjörgu Láru 9 ára, og hefur móðurhlutverkið verið mitt aðalstarf síðan hún fæddist.
Ég er ein þeirra sem lauk aldrei framhaldsnámi, svo eftir nokkur ár sem heimavinnandi húsmóðir fór mig að langa til þess að ljúka því og geta í framhaldinu aukið við mig menntun.
Mér tókst það markmið með hjálp náms- og starfsendurhæfingu Janus.
Þar lærði ég meðal annars að byggja sjálfa mig upp og öðlast það sjálfstraust sem þarf til þess
að takast á við framhaldsnám. Eftir að tíma mínum hjá Janus lauk skráði ég mig í
áframhaldandi nám og hef ekki litið um öxl síðan.
Þetta er búið að vera bæði langur og strangur vegur en vel þess virði.
Ég hef alltaf haft áhuga á hönnun og sköpun af ýmsu tagi og ákvað því að elta það áhugamál mitt, en til þess þurfti ég að fara út fyrir þægindarammann.
Það sem að heillar mig hvað mest við grafíska miðlun er þessi þunna lína milli óreiðu og skipulags, húmors og alvarleika.
Þessi tími sem ég hef varið í námið hefur verið bæði erfiður og krefjandi en umfram allt lærdómsríkur, skapandi og skemmtilegur.
Ég vil því segja við alla þá sem eru að hugsa um að feta sömu braut og ég, það er aldrei of seint að ljúka námi!